Útvarp Saga þarf að greiða fjölmiðlamanninum Sigurðu G. Tómassyni rúmar 745 þúsund krónur, vexti og 530 þúsund krónur að auki í málskostnað vegna slita á ráðningarsamningi við hann. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu í maí. Forsvarsmenn Útvarps Sögu áfrýjuðu málinu. Hæstiréttur staðfeseti dóminn í dag.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að Sigurður hafi hafið störf sem dagskrárgerðarmaður hjá Útvarpi Sögu í október árið 2006 og séð um þátt í beinni útsendingu í tvær klukkustundir alla virka daga. Ákvæði í samningnum kvað á um að hann sé tímabundinn en uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara. Sigurður fékk launalaust leyfi hjá Útvarpi Sögu sumarið 2010 til að sinna leiðsögumannsstarfi og átti hann að koma til baka um og eftir miðjan september. Í aðalmeðferð málsins sagðist hann hafa fengið sams konar leyfi til að sinna slíku starfi yfir sumartímann. Því var hafnað hjá Útvarpi Sögu og hann sagður hafa átt sumarleyfi í 25 virka daga sem hafi hafist þriðjudaginn 25. maí. Hann hafi samkvæmt því átt að mæta aftur til vinnu 30. júní. Ekkert samkomulag hafi verið gert um launalaust leyfi.

„Þú kemur allt of seint, Siggi minn.“

Sigurður vann sem leiðsögumaður sumarið 2010 fram í september. Um miðjan mánuðinn reyndi hann ítrekað en árangurslaust að hafa samband við framkvæmdastjóra Útvarps Sögu til að boða komu sína aftur. Þegar ekkert gekk hafi hann 19. september 2010 sent honum smáskilaboð og sagt vera tilbúinn til starfa næsta dag, 20. september. Hann hafi hins vegar fengið smáskilaboð til baka sem í sögðu:  „Þú kemur allt of seint, Siggi minn.“ Ekki hafi verið gert ráð fyrir honum í vetrardagskránni. Sigurður taldi þetta jafngilda uppsögn og áréttaði við framkvæmdastjóra Útvarps Sögu að samkvæmt kjarasamningum bæri að segja honum upp skriflega, ef um það væri að ræða, með þriggja mánaða fyrirvara, en ella bæri stefnda að greiða stefnanda laun frá því hann kom til starfa.

Framkvæmdastjóri Útvarps Sögu sagði hins vegar Sigurð hafa fengið greidd laun til 30. júní 2010 og litið svo á að með þeirri greiðslu hefðu launagreiðslur til Sigurðar verið gerðar upp að fullu. Hafi hann því verið tekinn af launaskrá og ekki gert ráð fyrir þætti hans í vetrardagskrá útvarpsstöðvarinnar.

Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu og héraðsdómur. Þ.e. að Sigurði hafi verið sagt upp störfum og eigi hann því rétt á til launa í uppsagnarfresti í þrjá mánuði.