Útvarpsstöðinni Útvarp Saga fær ekki leyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun til að senda áfram út dagskrá sína á tveimur FM-tíðnum svo útsendingar stöðvarinnar náist um allt höfuðborgarsvæðið.

Í fyrra fékk stöðin tímabundið leyfi til að senda út á tíðninni 102,1 MHz til viðbótar við hefðbundnu tíðni stöðvarinnar 99,4 MHz, en síðarnefnda tíðnin náðist illa í Kópavogi og nágrenni.

Er það einnig vegna þess að bílar sem framleiddir eru í Bandaríkjunum geti ekki tekið við merkinu frá þeirri tíðni, að því er kemur fram í frétt DV um málið. Ekki kemur þó fram hvers vegna það væri.

Verður að velja á milli að viðurlögðum dagsektum

Nú hefur stofnunin ákveðið eftir nokkrar framlengingar á leyfinu fyrir hinni nýju tíðni að útvarpsstöðin verði að velja á milli tíðnanna, þar sem útvarpstíðni sé takmörkuð auðlind.

Þrátt fyrir það séu bæði Bylgjan og RÚV með fleiri en eina tíðni á sömu útvarpsstöðvum sínum, en svar stofnunarinnar við þeirri ábendingu var að eftirspurnin hafi verið önnur þegar Bylgjunni og RÚV var úthlutað tíðnunum auk þess sem stofnunin vísar í lögbundið hlutverk RÚV.

Samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar mun Útvarp Saga þurfa að greiða dagsektir allt að hálfri milljón króna ef hún sendir áfram út á tveimur tíðnum 25. nóvember næstkomandi.