Lagt er til að fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds hækki á næsta ári um 700 kr. og nemi 17.900 kr. á hvern gjaldanda í stað 17.200 kr. samkvæmt gildandi lögum.

Útvarpsgjaldið mun á næsta ári hækka um 700 krónur, úr 17.200 kr. í 17.900 kr., verði frumvarp fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkismálum að veruleika.

Útvarpsgjald er nefskattur sem skattgreiðendur þurfa að greiða vegna Ríkisútvarpsins. Allir þeir einstaklingar sem greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra greiði útvarpsgjaldið, svo og þeir lögaðilar sem eru skattskyldir og bera sjálfstæða skattaðild.

Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari hækkun eru áætlaðar rúmlega 140 milljónir króna en eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá rennur það fjármagn sem innheimtist með útvarpsgjaldi ekki að fullu til RÚV heldur tekur ríkið um 10% hlut í sinn vasa.