„Ég get ómögulega manað mig upp í að hafa skoðun á áliti þingmanns á sjónvarpsþætti sem hann hefur aldrei séð,“ segir Páll Magnússon, forstjóri RÚV. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega nýjan spurningaþátt RÚV sem hefur göngu sína um helgina. Í auglýsingu sem birtist á RÚV í gær kemur fram að sigurvegari fær 10 milljónir í verðlaun.

„Það hefur komið fram að samstarfsaðili Ríkisútvarpsins um þáttinn leggur til verðlaunaféð,“ segir Páll Magnússon. Sá aðili er Íslandsspil, sem er í eigu SÁÁ, Rauða krossins og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði, undir liðnum störf þingsins í dag, hvort verið væri að veita þetta verðlaunafé af þeim framlögum sem RÚV fær úr ríkissjóði. Hvarvetna væri verið að hagræða í ríkisrekstri og það væri með ólíkindum ef svo væri. Útvarpsstjóri segir svo ekki vera. „Mér er fyrirmunað að sjá hvað þetta hefur að gera með erfiðleika í ríkisfjármálum,“ segir hann.