Forsvarsmenn RÚV ohf telja félagið ekki hafa brotið gegn gildandi samkeppnislögum með háttsemi sinni. En fyrr í dag gaf Samkeppniseftirlitið út álit þess efnis að RÚV kynni að hafa brotið lög með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína á auglýsingamarkaði.

Í fréttatilkynningunni, sem Páll Magnússon útvarpsstjóri skrifar undir, segir að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins verði ekki skilin öðruvísi en að staða RÚV á auglýsingamarkaði leiði af sér samkeppnislega röskun, og að eftirlitið telji að RÚV sé ekki stætt á öðru en að hverfa af þeim markaði.

„Slíkt gæti þá, að óbreyttu, leitt til þess að sú staða skapist á markaði að einn aðili verði í einstakri yfirburðastöðu á auglýsingamarkaði, sem gæti jafnframt verið til þess fallið að skaða samkeppni á tengdum mörkuðum,“ segir í tilkynningu RÚV. „Telji Samkeppniseftirlitið slíkt til þess fallið að auka samkeppni, og þjóna hagsmunum neytenda, verður svo að vera,“ segir Páll Magnússon útvarpsstjóri.

Í tilkynningunni kemur fram að RÚV muni ekki tjá sig um einstök efnisatriði álitsins fyrr en nauðsynlegur tími hafi gefist til að fara yfir það sérstaklega.