Páll Magnússon, útvarpsstjóri, segir að Landsbankinn hafi frá hruni afskrifað á kostnað almennings milljarða á milljarða ofan vegna fjölmiðlareksturs Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Þetta segir Páll í aðsendri grein sem birtist á vef Pressunar í gær.

Páll segir að þessu til viðbótar berist reglubundnar fréttir af því að ríkisbankinn semji æ ofan í æ um endurfjármögnun á þessum rekstri „til að tryggja áframhaldandi eignarhald og yfirráð Jóns Ásgeirs á 365, sem er langstærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins,“ eins og Páll orðar það í greininni.

Þá segir Páll að ofan á þetta bætist að nú liggur fyrir Alþingi ríkisstjórnarfrumvarp sem Páll segir að muni árlega mun flytja 300-400 milljónir króna af auglýsingatekjum frá RÚV beint í vasa 365 og Jóns Ásgeirs, sem fyrir sé með um 60% af heildarauglýsingamarkaðnum á Íslandi.

„En þar með er ekki allt upp talið. Það liggur líka fyrir ríkisstjórnarfrumvarp sem fjallar um eignarhald á fjölmiðlum og tryggir að ekki verður hreyft við einsmanns eignarhaldi Jóns Ásgeirs á meira en helmingi íslenskra fjölmiðla, sé miðað við veltu,“ segir Páll.

„Af hverju stendur ríkisvaldið þennan grimmilega og grímulausa vörð um hagsmuni og ítök Jóns Ásgeirs Jóhannessonar? Skuldar þjóðin honum eitthvað? Skulda stjórnmálaflokkarnir honum eitthvað?“