Sjö útvegsfyrirtæki styrktu framboð þingmannsins Jón Gunnarssonar um samtals eina milljón krónur vegna prófkjörs hans í Sjálfstæðisflokknum í síðasta mánuði. Þetta er hæsti einstaki styrkur frá lögaðila til þeirra sem þátt tóku í prófkjöri flokksins í suðvesturkjördæmi. Sjálfstæðismenn, þar á meðal Jón, hafa talað hvað harðast gegn breytingum á kvótakerfinu.

Framboð Jóns var það dýrasta í kjördæminu en framlög til þess námu samtals tæpum 2,8 milljónum króna. Jón lagði sjálfur tæpar 550 þúsund til framboðsins og fékk álíka háa fjárhæð frá átta einstaklingum. Framlög frá lögaðilum, fyrirtækjum og einkahlutafélögum í eigu einstaklinga, námu samtals 1.670.000 krónum.

Fyrirtækin sem studdu framboð Jóns voru eftirfarandi: Kraftvélar hf., Eskja hf., Hraðfrystihús Hellisands, Dalborg ehf., Saltver ehf., Þorbjörn hf., Toyota á Íslandi, Eignarhaldsfélag Hörpu (félag Helga Magnússonar, formanns stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, og fólki honum tengdu), Brim hf., Kogt ehf., Fjarðargrjót ehf., Vísir hf., Ístak hf., Magni ehf. og Smokkur ehf.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í upplýsingum frá sjö einstaklingum sem hafa skilað inn upplýsingum til Ríkisendurskoðunar um uppgjör sín í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Fram kemur í gögnunum að framlög í prófkjörum þeirra námu samtals rétt tæpum sjö milljónum króna.

UPPLÝSINGAR RÍKISENDURSKOÐUNAR Í HEILD - Nafn og samtals framlög:

Jón Gunnarsson – 2.766.417

Eigin framlög: 546.417

Bein framlög frá átta einstaklingum: 550.000

Bein framlög frá 15 lögaðilum: 1.670.000

Elínbjörg Magnúsdóttir – 1.155.000

Eigin framlög: 0

Bein framlög frá einum einstaklingi: 150.000

Bein framlög frá sex lögaðilum (Guðmundur Runólfsson, Ögurvík hf., Þorbjörn hf., Brim hf., Hraðfrystihús Hellisands hf. og Hvalur hf.) : 1.005.000

Teitur Björn Einarsson – 1.505.820

Eigin framlög: 0

Bein framlög frá 19 einstaklingum: 770.319

Bein framlög frá níu lögaðilum (Brim hf., JÁS lögmenn, HJ Bílar, 4-3 Trading, Bjarndal, Lexia, Lögfræðistofa Suðurnesja, Stuðull verkfræðistofa, Kubbur): 735.501

Óli Björn Kárason – 506.104

Eigin framlög: 81.104

Bein framlög frá þremur einstaklingum: 125.000

Bein framlög frá þremur  lögaðilum: 300.000

Ragnar Önundarson – 448.378

Eigin framlög: 448.378

Annað ekki gefið upp

Karen Elísabet Halldórsdóttir – 436.291

Eigin framlög: 6.291

Bein framlög frá tveimur einstaklingum: 80.000.

Bein framlög frá þremur lögaðilum: 350.000

Gunnlaugur Snær Ólafsson – 152.849

Eigin framlög: 125.000

Bein framlög frá tveimur einstaklingum: 27.849