Útvegsspilið markaði ákveðin tímamót á íslenskum spilamarkaði þegar það kom út árið 1977. Spilið varð vinsælasta jólagjöfin það er og næstu ár á eftir var spilið ein vinsælasta dægradvölin á heimilum landsins.

Undanfarin ár hefur spilið verið ófáanlegt. Einstaka eintök hafa verið boðin til sölu á sölusíðum á Facebook og hefur verðið verið frá 15 þúsund upp í 150 þúsund krónur, allt eftir ástandi spilsins.

Á þessu er að verða breyting því félagið Spilaborg hefur náð samkomulagi við Hauk Halldórsson, hönnuð spilsins, um að gefa það út á ný. Stefnt er að því að koma spilinu í verslanir fyrir næstu jól eða þann 1. nóvember. Rafræn útgáfa fyrir þá sem vilja spila Útvegsspilið í gegnum netið, mun reyndar verða í boði fyrr.

Stefán Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Spilaborgar, segir spilið verði gefið út í upprunalegri útgáfu en þó með þeim breytingum að allt upp í átta manns geti spilað en ekki einungis fjórir. Þá muni einnig fylgja uppfærðar reglur fyrir lengra komna en þær miði við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.

Stefán segir að fyrir fimm árum hafi hann fengið þá hugmynd að endurútgefa spilið en vegna anna hafi ekkert orðið úr því.

„Í miðjum heimsfaraldrinum fæddist hugmyndin á nýjan leik og ákveðið var að taka fullt stím áfram," segir hann. „Við höfum aðeins kynnt þetta og viðbrögðin hafa verið ótrúleg. Síminn stoppar varla og við fáum endalaus skilaboð frá fólki sem vill kaupa spilið í forsölu. Það er augljóst að þetta spil á enn fullt erindi til þjóðarinnar."

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.