Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti nú síðdegis að farbann frá flestum Evrópulöndum, sem tilkynnt var um á miðvikudag en náði þá ekki til Bretlands og Írlands, muni nú einnig ná til eyríkjanna tveggja.

Á blaðamannafundinum kom auk þess fram að ósjúkratryggðum Bandaríkjamönnum yrði tryggður aðgangur að endurgjaldslausri skimun, sem þýðir að allir landsmenn hafa nú ókeypis aðgang.

Þá verða launþegum tryggð laun meðan á sjúkra- eða fjölskylduleyfi frá vinnu stendur, og ríkið mun vinna með fyrirtækjum sem verða fyrir fjárhagslegum áhrifum.

Fjöldi staðfestra smita í Bandaríkjunum er nú kominn í 2.226, og fjöldi látinna í 51. Sérfræðingar telja þó hápunkti útbreiðslunnar ekki náð enn.