Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að dómur Hæstaréttar í máli Borgarbyggðar víkkar fordæmisgildi dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 vegna ólögmætra gengistryggðra lána. Þá segir í tilkynningu að dómurinn skýri með hvaða hætti lán skulu endurreiknuð, en í tilkynningunni er einnig tekið fram að í þessum tilvikum hafi lántakendur verið í skilum með sín lán.

Þá segir að nú eigi eftir að fá leyst úr nokkrum álitaefnum fyrir dómstólum sem nauðsynlegt er til að geta lokið endanlegum endurútreikningi ólögmætra gengistryggðra lána, svo sem varðandi þau lán sem hafa ekki verið í skilum. Íslandsbanki mun eins og frekast er kostur hraða þeirri vinnu sem að bankanum snýr.

Samkvæmt tilkynningu bankans eru forsendur sem liggja til grundvallar útreikningi lána í nýföllnum dómi Hæstaréttar sambærilegar þeim sem Íslandsbanki hefur notast við í mati á áhrifum Hæstaréttardómsins frá því í febrúar og endurspeglast í 12,1 milljarða króna gjaldfærslu í ársreikningi 2011.

Þá áréttar Íslandsbanki að lántakendur fyrirgera ekki mögulegum betri rétti sínum þrátt fyrir áframhaldandi greiðslur af slíkum lánum enda verði fullt tillit tekið til þess við leiðréttingu eftirstöðva.