Líftæknifyrirtækið Urður, Verðandi, Skuld (UVS) og Roche Diagnostics í Basel, Sviss, hafa gert samstarfssamning sín á milli á sviði krabbameinsrannsókna. UVS og Roche Diagnostics munu í sameiningu rannsaka æxli úr krabbameinssjúklingum til þess að leita nýrra sameinda sem geta spáð fyrir um endurkomu ákveðinna krabbameina og staðfest gildi sameinda sem áður hafa fundist. Samningurinn felur meðal annars í sér að UVS fær niðurstöður úr rannsóknum á genatjáningu sem eiga eftir að auka verulega tækifæri fyrirtækisins til frekari rannsókna. Virði samningsins var ekki gefið upp.

Dana Hosseini, framkvæmdastjóri UVS, segir samninginn við UVS mikilvægt tækifæri fyrir fyrirtækið. ?Við hlökkum til samstarfsins við Roche Diagnostics þar sem það á eftir að auka mjög gildi gagna- og lífsýnasafns UVS og auka þekkingu okkar á krabbameini.?

UVS er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í krabbameinsrannsóknum á Íslandi. Fyrirtækið, sem var stofnað árið 1998, er í eigu íslenskra fjárfesta en hjá því starfa nú um 25 manns. Rannsóknir UVS beinast að því að auka skilning á líffræðilegum orsökum krabbameins og leita betri leiða til greiningar og meðhöndlunar sjúkdómsins.