Líftæknifyrirtækin Urður, Verðandi, Skuld (UVS) og SEQUENOM í Bandaríkjunum hafa gert með sér samstarfssamning um rannsóknir á krabbameini. SEQUENOM hefur skilgreint ákveðna erfðabreytileika sem tengjast aukinni áhættu á krabbameini í brjósti og blöðruhálskirtli og staðfest þær niðurstöður í nokkrum mismunandi þjóðfélagshópum. Markmiðið með samstarfsverkefni UVS og SEQUENOM er að kanna hlutverk þessara erfðaþátta í íslenskum sjúklingum sem tekið hafa þátt í Íslenska krabbameinsverkefninu. Vísindasiðanefnd og Persónuvernd hafa veitt leyfi til rannsóknanna.

Auk þess að staðfesta notagildi erfðamarkanna við áhættumat á krabbameini geta rannsóknirnar aukið skilning á tilurð og framvindu sjúkdómsins. Meðal þeirra erfðabreytileika sem skoðaðir verða eru einbasabreytileikar í erfðavísunum ICAM og NuMA. Vísindamenn UVS og SEQUENOM munu einnig kanna hvort ákveðnir erfðabreytileikar hafi áhrif á hvernig sjúkdómurinn þróast eftir greiningu.

Samningur SEQUENOM og UVS felur í sér að bandaríska fyrirtækið fær söluréttindi á greiningarprófum eða meðferðarúrræðum sem þróuð verða en UVS fær hlutdeild í tekjum sem af slíkum aðferðum geta skapast.

?Samstarfið milli fyrirtækjanna getur leitt til þróunar mikilvægra greiningaraðferða,? segir Steve Zaniboni, starfandi forstjóri SEQUENOM. ?Niðurstöður munu veita mikilvæga innsýn í erfðaþætti sem geta aukið líkur á sjúkdómi og haft áhrif á gang hans. Þessi rannsókn er nauðsynlegur þáttur í því að staðfesta gildi greiningartækni SEQUENOM.?

?Ísland er sérlega mikilvægur og spennandi staður til erfðarannsókna á flóknum sjúkdómi eins og krabbameini. Yfirgripsmikil læknisfræðileg gögn, jafnhliða velvilja almennings og heilbrigðisstétta, veita sérstaka aðstöðu til árangursríkra rannsókna,? segir Dana Hosseini, framkvæmdastjóri UVS. ?Samningurinn er hluti af langtímaáætlun okkar í rannsóknum á krabbameini sem beinast að því að bæta meðferðarúrræði fyrir krabbameinssjúklinga.?

UVS er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í krabbameinsrannsóknum á Íslandi Fyrirtækið, sem var stofnað árið 1998, er í eigu íslenskra fjárfesta en hjá því starfa nú um 25 manns. Rannsóknir UVS beinast að því að auka skilning á líffræðilegum orsökum krabbameins og leita betri leiða til greiningar og meðhöndlunar sjúkdómsins.

SEQUENOM, sem er skráð á NASDAQ-hátæknimarkaðinum, leggur áherslu á að nýta erfðafræðiþekkingu til að finna betri lausnir á sviði líftækni, sameindalæknisfræði og jarðyrkju.