Líftæknifyrirtækið Urður, Verðandi, Skuld (UVS) hefur gert samstarfssamning við ACLARA BioSciences í Bandaríkjunum. ACLARA, sem einnig er líftæknifyrirtæki, hefur þróað öfluga tækni sem nefnist eTag og er notuð m.a. til rannsókna á virkni krabbameinslyfja. Samstarf ACLARA og UVS er hluti af langtímaverkefni sem felst í því að spá fyrir um virkni krabbameinslyfja þannig að þeim sé einungis beitt þegar ljóst er að þau muni koma að gagni. Rannsóknin hefur hlotið leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar.

Tækni ACLARA, eTag, byggist á því að mæla ýmsar gerðir og form líffræðilegra sameinda í frumulausnum. Hún er meðal annars notuð til þess að kanna hvers vegna sum krabbameinsæxli svara sértækum krabbameinslyfjum en önnur ekki. Rannsóknir og samanburður á líffræðilegum eiginleikum æxla sem ýmist svara sértækri lyfjameðferð eða ekki, geta aðstoðað við að velja strax við upphaf meðferðar þá sjúklinga sem munu hafa gagn af ákveðnu lyfi. Þannig yrði unnt að hlífa öðrum sjúklingum við gagnslausri lyfjagjöf og leita strax annarra úrræða sem væru líklegri til að hafa áhrif á gang sjúkdómsins.

Ákveðin þáttaskil hafa orðið í þróun krabbameinslyfja. Í stað lyfja sem vinna á öllum frumum í skiptingu er í auknum mæli unnið að þróun lyfja sem beinast sértækt gegn krabbameinsfrumum en hafa minni eða engin áhrif á heilbrigðar frumur. Krabbamein einkennist af stökkbreytingum í erfðaefni æxlisins og eru þessar stökkbreytingar mismunandi milli einstaklinga. Slíkur breytileiki gerir það að verkum að lyf sem hefur áhrif á æxli í einum einstaklingi getur verið gagnslaust gegn æxli í öðrum einstaklingi. Af þeim sökum er lögð vaxandi áhersla á að meta hvort markefni sé til staðar í æxli áður en sértækum lyfjum er beitt.

UVS er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í krabbameinsrannsóknum á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað árið 1998 en hjá því starfa nú um 20 manns. Rannsóknir UVS beinast að líffræðilegum orsökum krabbameins í þeim tilgangi að leita betri leiða til að greina og meðhöndla krabbamein segir í tilkynningu félagsins.

ACLARA, sem var stofnað árið 1995, byggir starfsemi sína meðal annars á eTag, sem mælir ýmsar gerðir og form líffræðilegra sameinda í frumulausnum.