Endurskoða verður verkáætlun Vaðlaheiðarganga þar sem ljóst er að verkinu verður ekki lokið í lok árs 2016 eins og núverandi áætlun gerir ráð fyrir. Þetta segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, í samtali við Fréttablaðið.

Ný verkáætlun er ekki langt komin að sögn Einars Hrafns Hjálmarssonar, staðarhaldara Ósafls, sem fer með framkvæmd verksins. „Ný verkáætlun er í skoðun, við erum ekki búnir að setja niður fyrir okkur hvenær hún verður klár og engin mynd komin á hana eins og staðan er núna. Nú vinnum við í því í rólegheitum.“

Til stóð að hefja afborganir af lánum ári eftir opnun ganganna. Lánin eru með ríkisábyrgð og segir Valgeir að nú þurfi að ræða við lánardrottna vegna tafa á greiðslum.