Íslenska ríkið ákvað í gær að lána 4,7 milljarða króna vegna framkvæmda við gerð Vaðlaheiðarganga undir Vaðlaheiði við Eyjafjörð. Framkvæmdin er þegar komin 44% fram úr áætlun. Þetta kom fram í fréttum RÚV í gær.

Hluthafar Vaðlaheiðarganga höfðu áður hafnað að útvega verkefninu aukið hlutafé vegna aukins kostnaðar. Fjármálaráðuneytið taldi að hagstæðast væri fyrir ríkið að ljúka verkinu.

Ákvörðunin var tekin á ríkisstjórnarfundi í gær. Þar ákvað ríkisstjórnin að lána þá fjárhæð sem er talin nauðsynleg til að standa straum af þeim kostnaði sem þarf til að ljúka verkinu. Þá var einnig ákveðið að gera úttekt á framkvæmdinni, sem ætlað er að útskýra framúrkeyrsluna og varpa ljósi á það hvað fór úrskeiðis.

Heildarlengd Vaðlaheiðarganga er 7,5 kílómetrar. Með jarðgöngunum styttist vegalengd á milli Akureyrar og Húsavíkur um tæplega 16 kílómetra og ekki þarf lengur að fara fjallveginn um Víkurskarð, sem er gjarnan ófær á veturna. Enn á eftir að bora um 200 metra af göngunum, en samkvæmt nýjustu áætlunum mun framkvæmdunum ljúka í árslok 2018, tveimur árum á eftir upphaflegri áætlun.