Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hafa stöðvast alveg vegna vatnsleka í austurenda þeirra, en vatnsæð opnaðist í göngunum síðasta laugardag. Talið er að sex hundruð lítrar af vatni streymi úr henni á hverri sekúndu. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Dælur hafa ekki undan því að dæla vatni út úr göngunum en ekki er ljóst hvenær það tekst að hreinsa göngin til fulls. Ekki er hægt að sprengja vestan megin í göngunum þar sem inn streymir svo heitt vatn að ekki er hægt að vera þar inni nema skamma stund.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stór heitavatnsæð opnast við gerð ganganna, en í febrúarbyrjun var greint frá því að sáttanefnd Ósafls og Vaðlaheiðarganga hefði fjallað um hvort verktakinn hefði gert mistök þegar stór heitavatnsæð opnaðist inn í göngin á síðasta ári.

Héldu því þá einhverjir fram að könnunarhola hefði ekki verið boruð í bergið áður en vatnsæðin opnaðist, en slíkar holur eru að jafnaði boraðar til þess að athuga jarðfræðiaðstæður. Fór svo á endanum að samið var um bætur vegna atviksins, en samkvæmt samkomulaginu þurfti verkkaupinn að bæta verktakafyrirtækinu hluta kostnaðarins sem féll til vegna lekans.