Vatnsleki og seinkun framkvæmda í Vaðlaheiðargöngum veldur því að kostnaður við framkvæmdina mun fara um 1.500 milljónir króna fram úr þeirri áætlun sem lá fyrir í árslok 2011. Þetta kemur fram í svari stjórnar Vaðlaheiðarganga ehf. við fyrirspurn fjárlaganefndar Alþingis sem greint er frá í Morgunblaðinu í dag.

„Niðurstaðan er að samkvæmt besta mati stjórnar Vaðlaheiðaganga í dag er áætlaður kostnaður við framkvæmdina um 12.450 milljónir króna með vsk. á verðlagi í árslok 2011, sem sagt 1.500 milljónir umfram þá áætlun sem þá lá fyrir eða tæp 14%,“ segir í svarinu.

Upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir að göngin myndu kosta 8.730 milljónir króna, en miðað við hana mun kostnaður þá fara 3.720 milljónir króna fram úr áætlun eða um 42%.

Stjórnin segir enn fremur í svari sínu til fjárlaganefndar að erfitt sé að gefa einhlítt svar um hvenær verklok séu áætluð. Það geti verið í júlí 2017, eða sjö mánuðum síðar en upphaflega var áætlað, eða í mars 2018.

Til þess að mæta umframkostnaði og eftir sparnaðaráætlanir duga ekki til kveðst stjórnin ætla að leita til hluthafa um aukningu hlutafjár og til ríkisins sem lánveitanda.