„Það er að vísu ekki hraður gangur, en við förum okkur að engu óðslega,“ segir Einar Hrafn Hjálmarsson, staðarstjóri Ósafls sem er aðalverktaki við Vaðlaheiðargöng, í samtali við Morgunblaðið.

Þar kemur fram sprengingar og gröftur í göngunum hafi gengið stóráfallalaust eftir að spreningar hófust að nýju 26. maí síðastliðinn. Þá hafði vinna legið niðri um tíma vegna vatnsleka.

Í síðustu viku, sem var fyrsta heila vikan eftir að sprengingar hófust að nýju, lengdust göngin um 19 metra. Segir Einar í samtali við Morgunblaðið að það sé vegna þess að mikið þurfi að grauta til að halda öllu vatni frá göngunum og því sjaldnar sprengt. Vonast hann til að afköstin aukist smám saman.

Nú er búið að bora 4,2 kílómetra, en göngin verða í heildina 7,5 kílómetra löng.