Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson segir heildarkvóta til byggða landsins hafi aukist undanfarin ár, en aflamarkið kemur af frádregnum 5,3% af heildarafla hverrar tegundar samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögum.

Undir aflamarkið fellur meðal annars afli til línuívilnana, strandveiða, rækju og skelbóta, frístundaveiða, áframeldi á þorski og byggðastuðnings.

Tvenns konar byggðakvóti

Á grunni byggðastuðningsins er veittur tvenns konar kvóti, annars vegar almennur byggðakvóti sem ráðstafaður er af atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu samkvæmt reglugerðum og hins vegar byggðakvóti Byggðastofnunar sem úthlutað er af stofnuninni.

Er hann úthlutaður til byggðarlaga sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og er þá gerður samningur um veiðar og vinnslu til nokkurra ára að uppfylltum vissum skilyrðum.

Minna úr að moða

Hefur hlutfall byggðakvóta Byggðastofnunar aukist á síðustu árum, hefur hann farið úr því að vera liðlega fimmtungur heildarbyggðarkvótans á fiskveiðiárinu 2013 til 2014 til þess að vera rétt rúmlega helmingur hans á næsta fiskveiðiári, eða 5.634 tonn af 11.257 tonna heildarbyggðarkvóta.

“Heildarkvóti til byggða landsins hefur aukist undanfarin ár í takt við vilja Alþingis og ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er úr minna að moða í ár meðal annars vegna loðnubrests, sem minnkar 5,3% aflamagnsins sem dregið er frá heildarafla og því varð að aðlaga ráðstöfunina að því. Vilji okkar hefur hins vegar verið að auka vægi byggðakvóta Byggðastofnunar en úttekt Vífils Karlssonar á byggðakvóta Byggðastofunar sýndi að sú aðferð lofar góðu og gaf Vífill aðferðarfræðinni góð meðmæli” segir Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fréttatilkynningu.