Viðskiptavog Seðlabankans er skökk. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag. Þetta segir Greiningardeildin mikilvægt í umræðu um upptöku nýrrar myntar þar sem yfirleitt er lögð áhersla á að lönd sem vilja gefa sjálfstæða peningastefnu upp á bátinn taki upp mynt þess markaðssvæðis sem það á í mestu utanríkisviðskiptum við. Greiningardeildin segir mögulegt að skekkja í voginni ýki vægi evrunnar í utanríkisviðskiptum Íslands og ýti þar með undir mikilvægi hennar í gjaldmiðlaumræðunni.

Hin meinta skekkja í voginni er rakin til álfyrirtækja en áliðnaðurinn leggur til sem nemur fjórðungi alls útflutnings Íslands. Deildin segir þann ávinning sem fylgja eigi upptöku annarrar myntar hérlendis sökum viðskiptakostnaðar aðeins að takmörku leyti eiga við áliðnaðinn. Ástæðan sé sú að sjóðstreymi álfyrirtækjanna sé að stærstum hluta í dollar. Þá séu viðskipti með ál bókuð sem evruviðskipti þar sem stór hluti álsins sé fluttur til Hollands. Álið fari hins vegar þaðan til hinna endanlegu neyslulanda sem gætu notað allt allan gjaldmiðil. Hugsanlega sé því réttara að leiðrétta þá skekkju með því að færi álið til bókar í annarri mynd í viðskiptavoginni, t.d. bandaríkjadal, þar sem verð áls er gefið upp í þeirri mynt á alþjóðamarkaði.

Greiningardeildin leiðréttir fyrir þessar meintu skekkjur í markaðspunktum dagsins og má eftir leiðréttingu sjá að vægi evrunnar er þó nokkru minna en gjaldmiðlavog SÍ gefur tilefni til að ætla, hvort sem leiðrétt er fyrir skekkjum með því að fjarlægja ál úr voginni, mæla það í dollurum eða styðjast við gögn úr tollskýrslum. Með síðastnefndu leiðinni er dollar stærsta einstaka myntin í utanríkisversluninni, þó Evran og myntir fasttengdar henni séu þrátt fyrir það enn veigamestar séu þær taldar saman. Það sé þó ekki með slíkum yfirburðum að aðrir gjaldmiðlar ættu ekki að koma til álita sem hugsanlegur lögeyrir Íslendinga segir í markaðspunktum greiningardeildarinnar.