Icelandair stóð fyrir tæplega tveimur af hverjum þremur áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Túrista.

Þar kemur fram að þrátt fyrir að félagið hafi fjölgað ferðum sínum um sjötíu hafi vægi þess minnkað milli ára. Icelandair er samt sem fyrr langumsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli með 64,9% áætlunarferða. Hlutfallið nam 69,2% í febrúarmánuði árið 2014.

Alls flugu níu flugfélög um Keflavíkurflugvöll í mánuðinum og juku þau öll við umsvifin milli ára að Wow air undanskildu, en þar fækkaði áætlunarferðum úr hundrað í 91 milli ára. Vélar Easyjet fóru hins vegar í loftið 106 sinnum frá Keflavíkurflugvelli og er félagið annan mánuðinn í röð næstumsvifamesta flugfélagið á vellinum.

Nánar má lesa um umsvif flugfélaganna á vef Túrista .