*

föstudagur, 5. mars 2021
Innlent 17. október 2020 19:01

Vægi netverslana sífellt meira

Hugbúnaðarfyrirtækið Smartmedia sér um vefverslanir fyrir yfir 130 íslensk fyrirtæki. Netverslun hefur „sprungið út“ í ár.

Alexander Giess
Hjörvar Hermannsson framkvæmdastjóri Smartmedia.
Gígja Einars

Mikil gróska hefur verið í netverslun undanfarin ár og þá sérstaklega á síðustu mánuðum. Umfang hugbúnaðarfyrirtækisins Smartmedia hefur vaxið samhliða þessari þróun. Í dag starfa um tíu starfsmenn hjá fyrirtækinu sem sér um vefverslanir fyrir yfir 130 íslensk fyrirtæki.

„Við stofnun var þetta hefðbundið íslenskt fyrirtæki sem var með mjög fjölbreytt þjónustuframboð og með fókusinn víða. Með tíð og tíma höfum við markvisst verið að beina spjótum okkar að netverslunum og samþættingu á ýmsum kerfum til að einfalda ferlið og rekstur netverslana almennt,“ segir Hjörvar Hermannsson, framkvæmdastjóri Smartmedia, spurður um þróun félagsins.

Í dag býður Smartmedia upp á breitt úrval þjónustusamninga, allt frá uppsetningu á vefverslun, reglulegu viðhaldi vefsíðna til allsherjar hýsingar á vefverslun sem og hönnun og gerð á markaðsefni.

„Árlegur vöxtur í netverslun hjá okkar viðskiptavinum hefur verið um 20-30% undanfarin ár. Núna er netverslun loksins að springa út og við erum að sjá margföldun hjá sumum af okkar viðskiptavinum á milli ára,“ segir Hjörvar.

„Fram undan eru þrír stærstu netverslunardagar landsins en á síðasta ári seldu þrír samstarfsaðilar okkar meira á degi einhleypra, sem er í nóvember, en öll önnur sala þeirra í gegnum netið á árinu 2019.“ Því tengt bendir Hjörvar á að mörgum félögum hafi tekist að auka heildarsölu sína á milli ára þrátt fyrir tímabundna lokun verslana, þá sérstaklega þeirra fyrirtækja sem hafa fjárfest í stafrænni þróun.

Segir hann að fjölbreytileiki á vörum og þjónustu sem seld eru í gegnum netið sé að aukast mikið. Til að mynda er bílaumboðið Tesla einn mest seldi bíll ársins og það í netverslun.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: netverslun Smartmedia