*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 12. september 2015 14:15

Vænar tekjur hjá heildsölum

Innflutningur dagvöru veltir tugum milljarða króna á ári hverju. Stærstu heildsölurnar hafa um 10 milljarða í tekjur.

Ólafur Heiðar Helgason
Matvöruverslun.
Haraldur Guðjónsson

Heildsala innfluttra matvæla og annarra dagvara til íslenskra verslana, veitingamanna og stórnotenda veltir tugum milljarða króna á ári. Til að taka stöðuna á markaðnum með innflutta dagvöru kannaði Viðskiptablaðið fjárhag sex heildsala sem eiga það sameiginlegt að mikill eða stærstur hluti vöruúrvals þeirra eru innfluttar dagvörur.

Fyrirtækin sem um ræðir eru Ísam, Bananar, Ó.Johnson & Kaaber, Innnes, Nathan og Olsen og Garri. Hafa ber í huga að mismunandi er hvaða flokkar matvæla og dagvöru heildsölur flytja inn, að vægi innfluttra vara í sölu fyrirtækjanna er mismikið, og að mismunandi er hvaða þjónustu fyrirtækin bjóða upp á samhliða heildsölurekstrinum.

Vörur vörðu 5,3 dögum hjá Banönum

Ísam hafði mestar tekjur ofangreindra sex fyrirtækja á síðasta rekstrarári, eða um 8,6 milljarða króna. Næst á eftir komu Bananar með tæpa 8 milljarða króna og Innnes með um 5,7 milljarða. Samanlagt voru tekjur fyrirtækjanna um 32,8 milljarðar króna á síðasta ári.

Hagnaður heildsalanna sex var á síðasta ári um 4,8 prósent af tekjum þeirra. Til samanburðar var þetta hlutfall 6,0% hjá Icelandair, 5,0% hjá Högum og 2,9% hjá N1. Bananar, sem eru í eigu Haga, höfðu langmestan hagnað allra heildsalanna, eða um 898 milljónir króna á rekstrarárinu 2014-2015. Næst á eftir kemur Garri með 213 milljónir í hagnað.

Bananar höfðu einnig hæsta hlutfall hagnaðar af tekjum, eða 11,3 prósent, og mestan veltuhraða birgða yfir rekstrarárið, en vörur fyrirtækisins voru að jafnaði 5,3 daga í umsjá þess. Veltuhraði birgða var á milli einn og tveir mánuðir hjá hinum heildsölunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Matvara Innnes Garri Bananar Heildsölur Ísam