Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) greiddi 7,1 milljarð króna í arð á árabilinu 2001 til 2010. Hagnaðurinn á þessu tíu ára tímabili nam 9 milljöðrum króna. Mestur var hann árið 2001, 2,8 milljarðar króna.

Fram kom í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins að tekjur ÁTVR fóru úr 13,3 milljörðum króna í 25,4 milljarða á þessum árum. Aukningin nemur tæpum 90% að nafnvirði.

Á árunum 2002-8 nam hagnaðurinn á bilinu 427 til 602 milljónum króna árlega en árið 2009 jókst hagnaðurinn verulega á milli ára og nam tæpum 1,4 milljörðum króna. Árið 2010 nam hagnaðurinn 1,3 milljörðum króna þannig að samanlagður hagnaður á tímabilinu er um 9 milljarðar króna.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði nam tæpum 8,4 milljörðum króna. Á sama tímabili greiddi ÁTVR um 7,1 milljarð króna í arð til ríkissjóðs.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.