Greining Íslandsbanka segir ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur í takti við þeirra spá. Í Morgunkornum Íslandsbanka segir að peningastefnunefndin rökstyðji ákvörðun sína á þann hátt sem við reiknuðum með þ.e. með því að verðbólguhorfur hafa versnað og að hætta er á að hærri verðbólguvæntingar festi verðbólguna í sessi.

Peningastefnunefndin gefur til kynna í yfirlýsingu sinni sem birt var í morgun að frekari vaxtahækkana megi vænta á næstunni. Segja þeir að til þess að draga úr hættu á því að hærri verðbólguvæntingar og veikt gengi krónunnar festi of mikla verðbólgu í sessi og til að sporna gegn aukinni verðbólgu og hugsanlegum þrýstingi á gengi krónunnar kunni að vera þörf á því að hækka vexti frekar. Greining Íslandsbanka reiknar því með að bankinn muni hækka vexti sína um 0,5 prósentur til viðbótar fyrir lok árs.