Það er bjartari tíð framundan ef marka má morgunkorn greiningar Íslandsbanka. Þar kemur fram að allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar hækkuðu í júní frá fyrri mánuði og eru nú í sögulegu hámarki frá hruni. Væntingar til efnhags- og atvinnulífs eru að aukast bæði hvað varðar nútíðina og framtíðina.

Væntingavísitala Capacent Gallup var birt í morgun og er vísitalan fyrir júní mánuð 79,9 stig sem er hæsta gildi vísitölunnar frá hruni en leita þarf aftur til maí 2008 til að finna hærra gildi. Vísitalan hækkar um 6,6 stig frá fyrri mánuði og er 14,5 stigum hærri en á sama tíma í fyrra.

Í morgunkorninu er því velt upp hvað það gæti verið sem sé að lyfta lund landans en meðal annars má nefna krónuna sem hefur styrkst um 3% frá síðustu mælingu vísitölunnar, hjöðnun verðbólgu, atvinnuleysi er nú komið niður í 5,6% og störfum er að fjölga. Þá fer kaupmáttur vaxandi og landsframleiðslutölur fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs benda til að hagvöxtur á ársfjórðungnum hafi verið mjög góður og að efnahagsbatinn haldi áfram.

Eins og fram kemur i morgunkorninu var vísitalan fyrir fyrirhuguð stórkaup einnig birt í morgun.Til stórkaupa teljast, bíla-,  íbúða- og utanlandsferðakaup. Vísitalan fyrir fyrirhuguð stórkaup hækkaði lítillega frá síðustu mælingu sem átti sér stað í mars síðastliðnum eða um 1,7 stig.  Er gildi vísitölunnar nú 54,1 stig og hefur ekki verið hærri frá því  í júní 2008. Vísitalan fyrir utanlandsferðir hækkar um 5,5 stig frá fyrri mælingu en 61% aðspurðra segja nú mjög eða frekar líklegt að þeir ferðist til útlanda á næstu 12 mánuðum.

Vísitalan fyrir fyrirhuguð íbúðakaup er nú hærri en hún hefur verið frá því fyrir hrun og er 8,1 stig. Athyglisvert er að áhugi á íbúðakaupum er að glæðast mest meðal þeirra sem eru á aldrinum 25-34 ára eða í þeim aldurshópi sem líklega er að kaupa sína fyrstu  íbúð.