Jólagjafahandbók
Jólagjafahandbók
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Væntingar íslenskra neytenda voru talsvert lægri á þriðja ársfjórðungi en á fyrri helmingi ársins. Þá hyggja færri á stórkaup á næstunni en raunin var í sumarbyrjun. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka sem vísar til Væntingavísitölu Gallup fyrir september, en hún var birt í morgun. Greining segir að þetta bendi, ásamt öðrum nýlegum hagvísum, til þess að einkaneysla vaxi hægt þessa dagana og að vöxtur hennar á seinni hluta árs kunni að verða hægari en vænst var.

Væntingavísitalan hækkar um 7,4 stig frá fyrri mánuði og mælist nú 73,7 stig. Hækkunin kemur eftir mikla lækkun í sumar, en í júlí og ágúst lækkaði vísitalan samtals um þriðjung, og fór úr 100,6 stigum í júní niður í 66,3 stig í ágúst.

Þrátt fyrir hækkunina nú er gildi vísitölunnar það næstlægsta það sem af er ári. Við höfum áður bent á að VVG hækkar gjarnan í aðdraganda alþingiskosninga og lækkar svo nokkuð að nýju að þeim loknum. Hreyfingin í kring um kosningarnar nú virðist hins vegar í stærra lagi, og kann að skýrast af því að neytendur hafi margir hverjir haft talsverðar væntingar um fjárhagslegan ábata í kjölfar kosninganna, sem enn hafa ekki gengið eftir.