Mat stjórnenda á aðstæðum í atvinnulífinu hefur heldur farið versnandi á síðari hluta ársins eftir að hafa batnað nokkuð síðastliðið vor. Einungis 7% stjórnenda telja aðstæður góðar, tæplega helmingur telur þær slæmar og álíka stór hópur telur aðstæður hvorki góðar né slæmar.

Þetta eru helstu niðurstöður ársfjórðungslegrar könnunar sem Capacent  gerir fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins sem gerð var í nóvember síðastliðnum. Nægt framboð er af starfsfólki og í heild er búist við nokkurri fækkun starfsmanna á næstu sex mánuðum. Verðbólguvæntingar hafa minnkað örlítið en haldast háar því búist er við 3,9% verðbólgu á næstu 12 mánuðum.

Könnunin var gerð á tímabilinu 12. til 29. Nóvember og voru sjö spurningar lagðar fyrir. Í úrtaki voru 404 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 269 þannig að svarhlutfall var 67%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.