Frá upphafi árs hafa verðbólguvæntingar bæði stjórnenda fyrirtækja og almennings hækkað. Væntingar stjórnenda fyrirtækja um verðbólgu til eins árs hafa um tvöfaldast frá árslokum 2010 og eru tæplega 4%, en dvínuðu þó örlítið við síðustu mælingu Capacent.

Að sama skapi hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði leitað snöggt upp á við frá ársbyrjun. Verðbólguálag á ríkisbréf til meðallangs tíma og til langs tíma, samkvæmt hagvísum Seðlabanka Íslands, hafa rúmlega tvöfaldast og er álagið um 5%.

Mælir gegn hækkun

Peningastefnunefnd Seðlabankans. Frá vinstri: Gylfi Zoega, Arnór Sighvatsson, Svein Harald Öygard formaður, Anne Sibert og Þórarinn G. Pétursson.
Peningastefnunefnd Seðlabankans. Frá vinstri: Gylfi Zoega, Arnór Sighvatsson, Svein Harald Öygard formaður, Anne Sibert og Þórarinn G. Pétursson.
© Edwin Roald Rögnvaldsson (VB Mynd/Edwin)
Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands skrifaði nýverið grein í Vísbendingu þar sem hann velti upp hver áhrif vaxtahækkunar yrðu við núverandi aðstæður í efnahagsmálum, þar sem verðbólga stafar ekki af of mikilli eftirspurn.

Gylfi telur að við núverandi aðstæður, þar sem verðbólga getur orðið til á þann hátt að fyrirtæki hækki álagningu til að standa í skilum með lán sín og launafólk getur þá brugðist við með kröfum um launahækkanir, geti vaxtahækkun aukið skuldabyrði og gert baráttuna erfiðari. Hærri vextir Seðlabankans geta þannig orðið til þess að auka verðbólguþrýstinginn.

„Friður á vinnumarkaði við hærri vexti krefst meira atvinnuleysis. Því skiptir máli að ná vaxtastigi niður í skuldakreppu, bæði til þess að skapa frið á vinnumarkaði, til þess að draga úr verðbólgu og til þess að auðvelda fyrirtækjum og heimilum að minnka skuldir sínar því fyrr byrjar hagkerfið ekki að vaxa af krafti,“ skrifar Gylfi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.