Meginmarkmið Seðlabankans er að verðbólga hér á landi sé sem næst tveimur og hálfu prósenti. Mikilvægur þáttur í að ná því markmiði er að væntingar samfélagsins um verðbólgu séu sem næstar markmiði Seðlabankans. Almennt eru verðbólguvæntingar hærri þeim mun þrálátari sem há verðbólga er. Verðbólguvæntingar nálægt markmiði Seðlabankans mynda því kjölfestu fyrir peningastefnuna.

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segist aðspurður hafa áhyggjur af því að sú háa verðbólga sem spáð er gæti grafið undan þessari kjölfestu. Hann segir að hjöðnun verðbólgunnar að undanförnu virðist því miður ekki endilega tengjast því að bankinn hafi náð að skapa trúverðuga og langvarandi kjölfestu í formi lægri verðbólguvæntinga. Ekki sé tímabært að fagna sigri í þeim efnum ennþá.

Ríkisfjármálin þurfa að spila með

Þórarinn segir mikilvægt að ríkisfjármálin leggist á sömu sveif og peningastefnan næstu misserin. „Samkvæmt okkar mati er slakinn í þjóðarbúinu horfinn. Það þýðir að nú þarf ríkisfjármálastefnan að vinna á móti hagsveiflunni. Það er gríðarlega mikilvægt,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .