*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 12. maí 2021 10:33

Væntingar um hærri verðbólgu en áður

Markaðsaðilar búast við 2,5% verðbólgu eftir eitt ár og hafa langtímavæntingar frá síðustu könnun lítið breyst.

Snær Snæbjörnsson
Seðlabanki Íslands stóð fyrir könnuninni
Haraldur Guðjónsson

Verðbólguvæntingar markaðsaðila til skamms tíma reikna með að verðbólga fyrir þennan ársfjórðung verði um 4,6% en muni síðan hjaðna og verða 3,6% á þriðja ársfjórðungi og 3,3% á fjórða ársfjórðungi Þetta kemur fram í könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila.

Þetta er meiri verðbólga en markaðsaðilar reiknuðu með í janúar þegar búist var við að verðbólga myndi toppa í 3,7% á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Verðbólguvæntingar til langs tíma haldast óbreyttar frá síðustu könnun og búist er við því að verðbólga eftir tvö, fimm og tíu ár verði 2,5%. Þá er búist við því að gengi krónunnar muni styrkjast og verða 145 krónur gagnvart evru eftir eitt ár.

Væntingar markaðsaðila eru að meginvextir bankans verði enn 0,75% á yfirstandandi tímabili en hækki svo og verði 1% á þriðja ársfjórðungi og 1,25% á fjórða ársfjórðungi. Eftir eitt ár er búist við því að meginvextir verði orðnir 1.5%, og 1,75% eftir tvö ár. Þá taldi meirihluti könnunarinnar taumhald Seðlabankans vera hæfilegt, eða 56% þátttakenda. Um 28% þátttakenda taldi taumhald vera of laust og 16% töldu það vera allt of laust.

Meirihluti þátttakenda taldi meginástæðu þess að útlán til fyrirtækja hafi ekki verið meiri undanfarin misseri vera út af óvissu um efnahagshorfur og rekstrarskilyrði, eða 68%. Þá fannst 36,8% þátttakenda meginástæðu vera skortur á fjárfestingartækifærum eða að ekki hafi verið þörf á frekari fjárfestingum og 26,3% fannst vera of hátt álag á útlánsvexti. 

Þátttakendur könnunarinnar voru 26 talsins og var leitað til banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fasteignasjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar eftir svörum.