Verðbólguvæntingar markaðsaðila hafa lækkað frá síðustu könnun Seðlabankans í ágúst síðastliðið, en ef horft er til eins árs eða lengur eru þær svipaðar.

Markaðsaðilar búast jafnframt við áframhaldandi styrkingu krónu gagnvart evru, en einnig búast þeir við lækkun veðlánavaxta eftir ár, en verði svo hækkaðir á ný.

Þetta kemur fram á heimasíðu Seðlabankans, en ef miðað er við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar um 1,8% á fjórða fjórðungi þessa árs.

Er það aðeins meiri verðbólga en þeir væntu í síðustu könnun sem má líklega rekja til aukinnar ársverðbólgu í kjölfar leiðréttingar Hagstofunnar á útreikningi verðbólgu í september síðastliðnum.

Búast við minni verðbólgu en áður á næsta ári

„Markaðsaðilar vænta aftur á móti um 1,7% verðbólgu á bæði fyrsta og öðrum fjórðungi næsta árs og um 1,9% á þeim þriðja. Það er allt að 0,4 prósentum minni verðbólga en þeir gerðu ráð fyrir í ágúst,“ segir í frétt bankans.

„Könnunin bendir einnig til þess að markaðsaðilar búist við að verðbólga verði 2,2% eftir eitt ár, 3% eftir tvö ár og 3% að meðaltali á næstu fimm árum sem er nánast óbreytt frá síðustu könnun.

Vænta sterkara gengi gagnvart evru

Væntingar um meðalverðbólgu á næstu tíu árum lækkuðu hins vegar lítillega eða um 0,2 prósentur milli kannana, í 2,8%. Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 117 kr. eftir eitt ár, þ.e. að gengi krónu verði tæplega 7% hærra en þeir væntu í síðustu könnun bankans.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni vænta markaðsaðilar þess að veðlánavextir bankans verði lækkaðir um 0,25 prósentur fyrir lok þessa árs, í 5,75%, og verði haldið þar fram á fjórða ársfjórðung 2017 þegar þeir verði hækkaðir á ný í 6%.

Lækkun vaxta hafi komið á óvart

Eru þetta nokkru lægri vextir en þeir væntu í könnuninni í ágúst sl. en svo virðist sem lækkun vaxta bankans í ágúst hafi komið þeim á óvart og höfðu þeir gert ráð fyrir að vextirnir yrðu lækkaðir í nokkrum skrefum á næsta ári.

Þegar könnunin var framkvæmd taldi um 29% svarenda taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt sem er 13 prósentum hærra hlutfall en í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhald peningastefnunnar of laust eða alltof laust var svipað eða um 7% og hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða alltof þétt lækkaði um tæplega 15 prósentur, í 64%.

Tæpur helmingur sagði leiðréttingu engin áhrif hafa

Í könnuninni í nóvember voru markaðsaðilar spurðir hverja þeir telja vera meginástæðu lækkunar ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa frá miðjum ágúst sl. fram í miðjan október.

Tæplega helmingur svarenda taldi vaxtalækkun Seðlabankans í ágúst og/eða væntingar um frekari vaxtalækkanir vera meginástæður þessarar lækkunar á skuldabréfamarkaði. Markaðsaðilar voru auk þess spurðir hvaða áhrif, ef einhver, leiðrétting Hagstofunnar á verðbólgubólguútreikningi sem birt var í september sl. hafði á verðbólguvæntingar þeirra.

Rúmlega helmingur svarenda sagði leiðréttinguna hafa hækkað verðbólguvæntingar sínar lítillega eða nokkuð til skemmri tíma (1-2 ára) en haft lítil eða engin áhrif á væntingar til lengri tíma (5-10 ára) en tæplega helmingur svarenda sagði mistökin ekki hafa haft nein áhrif á verðbólguvæntingar sínar.“