Væntingavísitala Gallup mælist nú í 124,3 stigum, eða rétt tæpum 10 stigum undir hæsta gildi sínu sem hún náði árið 2007. Þá hefur vísitalan mælst yfir 100 stigum í 6 mánuði, en allt yfir 100 stig er metið sem bjartsýnt meðan allt undir gildinu er metið til svartsýni.

Vísitalan hækkaði um tæp 11 stig í janúar frá desember. Gildi vísitölunnar er þá 43 stigum hærra en það var á sama tíma og í fyrra. Frá upphafi mælinga hefur gildi vísitölunnar aðeins mælst hærra í 15% tilvika.

Þá hækka undirvísitölur Gallup í flokknum einnig. Væntingar neytenda til aðstæðna eftir 6 mánuði hækka um rúm 9 stig og mælast þá 128,4 stig. Það er 29 stigum hærra en talan mældist á sama tíma árið 2015. Þá hækkar mat neytenda á efnahagslífinu einnig um 15 stig.