Væntingavísitala Gallup hækkaði um 0,1 stig milli mánaða í júní og mældist 135,7 stig. Vísitalan hefur aðeins verið hærri í 5% tilvika frá upphafi mælinga í mars 2001.

Vísitalan fyrir mat á núverandi ástandi hækkar um 6,2 stig milli mánaða og er nú komin nokkuð yfir vísitöluna um væntingar til sex mánaða, sem mælist 128,1 stig. Vísitala fyrirhugaðra stórkaupa hækkaði talsvert á öðrum ársfjórðungi eftir að hafa dalað á seinni helmingi ársins 2015.

Greining Íslandsbanka segir að þróun væntingavísitölunnar gefi tilefni til að ætla að einkaneysluvöxtur sé á verulegu flugi þessa dagana og býst við að vöxtur einkaneyslu á 2. ársfjórðungi verði enn meiri en sá 7,1% vöxtur sem mældist á 1. ársfjórðungi.