*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 24. mars 2021 11:25

Væntir hertra aðgerða gegn veirunni

Ríkisstjórnin fundar síðar í dag um nýjar tillögur Þórólfs Guðnasonar. Kári Stefánsson vill skella öllu í lás strax í dag.

Ritstjórn
Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson munu fara yfir tillögur Þórólfs Guðnasonar ásamt öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni síðar í dag.
Eyþór Árnason

Ríkisstjórnin fundar síðar í dag um nýjar tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis í kjölfar fjölgunar kórónuveirusmita. Þá er blaðamannafundar að vænta í kjölfarið að því er fram kemur á mbl.is.

Upphaflega var boðað til upplýsingafundar Almannavarna vegna faraldursins klukkan 11 en svo hætt við fundinn skömmu síðar.

17 smit greindust innanlands í gær en þar af voru 3 utan sóttkvíar. Af þeim sem greindust voru 11 smit meðal barna í Laugarnesskóla.

Í samtali við RÚV segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, að stjórnvöld hljóti að skella í lás, strax í dag. 

 „Ef við gerum þetta myndarlega strax þá getum við komist fyrir þetta á skömmum tíma. Við höfum hreyft okkur aðeins of hægt og það hefði verið skynsamlegt að gera þetta strax á mánudag en stjórnvöld gera þetta vonandi í dag og þá eigum við smá séns,“ segir Kári við RÚV.