*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 6. október 2020 11:07

Væntir ójafnvægis á fasteignamarkaði

Íbúðum á fyrstu byggingarstigum hefur fækkað um 41% milli ára. Aðalhagfræðingur SI sér fram á ójafnvægi á fasteignamarkaði.

Ritstjórn
Ingólfur Bender er aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Haraldur Guðjónsson

Skýr samdráttur er í byggingum nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Samdrátturinn á einna helst við um íbúðir á fyrstu byggingarstigum, sem komnar eru að fokheldu stigi, en þeim hefur fækkað um 41% milli ára að því er fram kemur í talningu Samtaka iðnaðarins. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.

Kemur fram í greiningu SI að „leita þarf aftur til eftirhrunsáranna 2010-2011 til að finna viðlíka samdrátt í byggingu íbúðarhúsnæðis á umræddu svæði.“ Þrátt fyrir það fjölgaði fullgerðum íbúðum talsvert á milli ára.

„Við stöndum þá væntanlega frammi fyrir því að ójafnvægi sé að koma aftur upp á íbúðamarkaði á næstu tveimur árum líkt og við höfum verið að takast á við á síðustu árum, þar sem uppsöfnuð þörf hefur skapast vegna þess að það hefur verið mun minna byggt heldur en þörf hefur verið á,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins í viðtali í Morgunblaðinu.

Ingólfur bendir á að færri fullbúnar íbúðir munu koma inn á markaðinn á næsta og þarnæsta ári. Því hefur SI lækkað fyrri spá sína. Áður hafði verið gert ráð fyrir ríflega 2.500 fullbúnum íbúðum á næsta ári en nú er gert ráð fyrir um 2.000. SI áætlar að um 1.900 fullbúnar íbúðir komi á markað árið 2022.