Skeljungur hyggst kaupa Port I sem er eigandi Dælunnar og Löðurs. Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, telur starfsemi Löðurs falla mjög vel að rekstri Skeljungs og segir að tilkoma Dælunnar myndi auka nýtingu innviða Skeljungs enn fremur. „Þegar við vorum að skoða kaupin á Port vorum við ekki síst að horfa á starfsemina hjá Löðri,“ segir Árni.

„Til að mynda hugmyndir um umhverfisvæn skref tengd bifreiðum. Okkar áætlanir ganga út á að loka þvottaplönum okkar og gera þvottastöðvar umhverfisvænni heldur en þær eru í dag.“ Árni segir að Skeljungur hafi burði til þess að taka yfir rekstur Dælunnar „með mjög óverulegum auknum tilkostnaði“ þar sem ekki þurfi að kaupa tankarými fyrir eldsneytið, flutningsbíla né að ráða viðbótarstarfsmenn.

Í lok síðasta árs var Port I í eigu tveggja eignarhaldsfélaga. Á meðal endanlegra eigenda eru Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, Halla Sigrún Hjartardóttir, sem var á tíma eigandi Skeljungs og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins (FME), og Árni Sigurðsson hjá Marel.

Skeljungur teygir anga sína víða

Skeljungur hefur látið til sín taka undanfarið. Fyrir ári keypti félagið Basko, sem meðal annars rak 10-11 verslanir og Kvikk sem reknar eru við eldsneytisverslanir Skeljungs. Í sumar keypti Skeljungur fjórðungshlut í bæði bakaríinu Brauð&Co og veitingastaðnum Gló, sem Birgir á stóran hlut í, auk ríflega 33 hektara lands í Mosfellsbæ.

Árni Pétur segir að Skeljungur hafi óskað eftir samtali við Mosfellsbæ og lýst yfir áhuga á samstarfi hvað varðar þróun og uppbyggingu á því svæði. Félagið er opið fyrir opnun á orkustöð og veitingasölu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .