Forstjóri Landsvirkjunar hefur lýst þeirri skoðun sinni að skynsamlegt væri að fjármagna nýjar virkjanaframkvæmdir með eiginfjárframlagi frekar en með ríkisábyrgð. Orkuveita Reykjavíkur er sömuleiðis að skoða verkefnafjármögnun í gegnum sérfélag. Þeir hægrimenn sem andvígir eru hvers kyns ríkisábyrgð af hagsjónarástæðum þurfa því ekki að setja sig upp á móti nýjum virkjanaframkvæmdum.

Ólafur Teitur Guðnason.
Ólafur Teitur Guðnason.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Þetta segir Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann svarar grein Davíðs Þorlákssonar , formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) frá því í byrjun maí. Í grein sinni gagnrýndi Davíð stóriðjustefnu stjórnvalda og sagði hana vera samband af áætlunarbúskap og kjördæmapoti frekar en markaðsbúskap. Þess vegna ættu hægri á Íslandi að láta af stuðningi við stóriðju í þeirri mynd sem hún hefur verið hingað til enda væru það að lokum skattgreiðendur sem bera ábyrgð á þeim raforkufyrirtækjum sem selja orku til stóriðjunnar.

„Fyrirfram hefði ég talið að það væri fremur neðarlega á forgangslista hægrimanna að andæfa stefnu sem leitt hefur til þess að í dag streyma 100 milljarðar á ári í erlendum gjaldeyri inn í hagkerfið í gegnum þrjú álfyrirtæki, og eru þá aðeins taldar nettó gjaldeyristekjur sem verða eftir á Íslandi,“ segir Ólafur Teitur í grein sinni en bætir því þó við að röksemdir Davíðs verðskuldi umræðu.

Ólafur Teitur rifjar upp  ummæli Davíðs um að skattgreiðendur væru látnir ábyrgjast lán orkufyrirtækja til að hægt sé að bjóða stóriðju lægra orkuverð en ella.

„Í fyrsta lagi liggur ekkert fyrir um það að ávinningur af slíkri ábyrgð hafi fremur endað í vasa stóriðjunnar í formi lægra orkuverðs en í vasa orkufyrirtækjanna sjálfra,“ segir Ólafur Teitur í grein sinni.

„Í öðru lagi er ljóst, að hafi ávinningurinn verið notaður til að lækka orkuverð hefur það skilað sér hlutfallslega langbest til skattgreiðenda og almennings, því bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur hafa minni arðsemi af því að selja orku til almennings en til stóriðju. Raunar helmingi minni í tilviki Landsvirkjunar.“

Þá segir Ólafur Teitur að ívilnanir, sem Davíð gagnrýndi sérstaklega í grein sinni, séu vel þekktar og viðurkenndar víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum og Evrópu.

„Apple kom á fót starfsstöð á Írlandi á 9. áratugnum vegna sérstakra ívilnana sem þarlend stjórnvöld buðu fyrirtækinu. Og í fyrra fékk sama fyrirtæki vilyrði fyrir 5 milljarða opinberum ívilnunum í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu í Texas. Hér á landi eru veittar umtalsverðar ívilnanir til að laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn,“ segir Ólafur Teitur. Þá bætir hann því jafnframt við að langstærsta erlenda fjárfesting á Íslandi frá hruni sé 60 milljarða fjárfestingarverkefni álversins í Straumsvík, sem ekki hafi fengið ívilnanir af neinu tagi.

Hvað uppbyggingu innviða af hálfu stjórnvalda varðar, sem oft er framkvæmd til að liðka fyrir stóriðjuframkvæmdum, segir Ólafur Teitur það varla vera óeðlilegt í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi að leggja að einhverju marki til hefðbundna innviði fyrir „fyrirtæki sem hyggjast verja tugum eða jafnvel yfir 100 milljörðum til að koma hér á fót starfsemi, skapa hundruð starfa og hafa skuldbundið sig til að kaupa orku í tugi ára,“ eins og hann orðar það.

„Loks nefnir Davíð að stórar fjárfestingar í okkar litla hagkerfi valdi skaðlegri þenslu og vaxtahækkunum. Nákvæmlega sama röksemd er iðulega notuð til að halda því fram að óráðlegt sé að lækka skatta. Því kemur svolítið á óvart að heyra henni beitt af SUS. Þá er ljóst að þessi röksemd hefur sjaldan átt eins illa við og nú, þegar fátt kæmi sér eins vel fyrir efnahagslífið og aukin fjárfesting, fleiri arðbær störf og auknar gjaldeyristekjur,“ segir Ólafur Teitur.

Ólafur Teitur segir í lokin að reynslan sé stærsta röksemdin gegn grein Davíðs. Stóriðjan sé ein þriggja meginstoða í öflun gjaldeyris, sem sé okkur lífsnauðsyn. Hún skapi vel launuð störf og gríðarleg umsvif. Hann segir að álverin þrjú hafi eytt 100 milljörðum hér á landi í fyrra, þar af 40 milljörðum í vörur og þjónustu fyrir utan orku. Verktakar, verkfræðistofur og hundruð annarra fyrirtækja njóti góðs af.

„Álver hafa á undanförnum árum verið meðal stærstu skattgreiðenda landsins. Eldri virkjanir mala gull, nánast hreinan gróða, og þess sama er vænst af hinum nýrri þegar þær hafa borgað sig upp,“ segir Ólafur Teitur.

„Þekking hefur skapast, ekki bara í orkuöflun heldur líka á sviði þjónustu við álver og talsvert er flutt út af þeirri þekkingu. Voru þetta mistök? Hefðum við betur setið heima og látið þessa uppbyggingu eiga sig? Værum við þá betur sett? Ég tel einsýnt að við værum verr sett. Stóriðja er sannarlega ekki upphaf og endir alls. En mikið óráð væri að mínu mati að afþakka þau miklu verðmæti sem hún sannarlega skapar og þau bættu lífskjör sem hún stuðlar að.“