Nefndin, sem rannsakaði fjárfestingar og starfsemi lífeyrissjóða, telur að fjárfestingar í sérstökum tegundum skuldabréfa, m.a. víkjandi og lánshæfistengdum bréfum, hafi verið hæpnar. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag. Í henni segir að þessar fjárfestingar hafi jafnvel ekki verið í anda laga um lífeyrissjóði og ekki samræmst hlutverki sjóðanna. Tekin eru dæmi af þátttöku í skuldabréfaútboði Glitnis í mars 2008 og milligöngu Landsbankans í útgáfu franska bankans Société Generale á baktryggðum skuldabréfum árin 2004 og 2005. Telur nefndin leika vafa á að lagaleg skilyrði hafi verið fyrir hendi hjá lífeyrissjóðunum til þátttöku í útgáfu á bréfum franska bankans.