Reykjavík Sightseeing Invest ehf. (RSS), sem meðal annars á og rekur flugvallarrútuna Airport Direct, tapaði tæpum 240 milljónum króna á síðasta rekstrarári en tap af rekstri nam 156 milljónum króna. Tap af rekstri árið 2018 var 182 milljónir króna og heildartap 463 milljónir króna.

Tekjur nú jukust um 172 milljónir, námu 897 milljónum, en kostnaður jókst að sama skapi um 143 milljónir og var rúmur milljarður. Stóran hluta neikvæðrar afkomu má rekja til dótturfélagsins Airport Direct ehf. Í upphafi árs var eigið fé RSS neikvætt um 187 milljónir króna en jákvætt um tæpar 13 milljónir sé tillit tekið til víkjandi láns frá móðurfélagi þess.

Langtímaskuldbindingar stóðu í 75 milljónum í árslok en heildarskuldir, án þess að víkjandi lánið sé talið með, nemur 392 milljónum króna.

Hlutafé RSS var aukið um 100 milljónir króna á nýliðnu ári með breytingu skulda í hlutafé. Í athugasemdum með ársreikningi er þess getið að félagið hafi nýtt sér úrræði stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins, svo sem hlutabætur og greiðslur launa á uppsagnarfresti, og afborgunum lána hafi verið frestað í hálft ár.

Unnið sé að fjárhagslegri endurskipulagningu en ef hún tekst ekki sé verulegur vafi uppi um rekstrarhæfi félagsins. Á síðasta ári sameinaðist RSS hópferðafyrirtækinu Gray Line en það félag tapaði 404 milljónum króna það árið.