*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 4. maí 2018 15:14

Vafi á rekstrarhæfi 66° Norður

Náist ekki samningar um langtímafjármögnun 66° Norður kann rekstrarhæfi félagsins að vera í óvissu.

Ritstjórn
Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri og eigandi 66° Norður.
Aðsend mynd

66° Norður tapaði tæpum 115 milljónum króna á síðasta rekstrarári sem er öllu meira tap en árið 2016 þegar það nam tæpum 39 milljónum króna. Rekstrarhagnaður félagsins, þ.e. afkoma fyrir fjármagnsliði og skatta nam 65 milljónum króna samanborið við 141 milljón árið 2016.

Eignir félagsins í lok árs 2017 voru tæplega 3,1 milljarður króna og hækka um 500 milljónir á milli ára. Eigið fé félagsins dróst saman um meira en helming á milli ára og stóð í lok árs í tæpum 126 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var því rétt rúmlega 4,1%. Þá lækkaði handbært fé félagins um tæpar 10 milljónir króna á milli ára og nam 75 milljónum króna í lok árs 2017.

Óvissa um rekstrarhæfi

Í ársreikningi félagsins segir að óvissa geti orðið um áframhaldandi rekstrarhæfi þess en það velti á því hvort náist að semja um langtímafjármögnun eða auka hlutafé. Þá segir að stjórn félagsins vinni að aukningu hlutafjár. Langtímalán félagsins eru öll færð sem skammtímaskuldir vegna þess að félagið uppfyllir ekki ákvæði lánasaminga um lágmarkseiginfjárkröfu. Veltufjárhlutfall félagsins sé þar afleiðandi aðeins 0,47. Jafnframt segir að ef ekki náist að tryggja áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins geti mat á eignum þeirra verið annað en það sem sett er fram í ársreikningi.

Þrátt fyrir þetta greiddi félagið út rúmar 80 milljónir í arð til hluthafa á árinu 2017 en árið áður hafði það greidd 1.283 milljónir í arð til hluthafa félagsins samkvæmt sjóðsstreymisyfirliti í ársreikningi. Allt hlutafé 66° Norður er í eigu félagsins BH Holding en það er í eigu hjónanna Bjarneyjar Harðardóttur og Helga Rúnars Óskarssonar en Helgi Rúnar er jafnframt forstjóri félagsins. 

Þá jukust laun og bónusar til lykilstjórnenda félagsins á milli ára en heildarlaunagreiðslur til stjórnenda voru 142 milljónir á árinu 2017 samanborið við 92 milljónir árið 2016. Þar af voru 4 milljónir greiddar í bónusa.

Segir reikninga endurspegla mikla og hraða uppbyggingu

„Reikningar félagsins endurspegla enn mikla og hraða uppbyggingu síðustu ára, með áherslu á fjárfestingu í innviðum og stuðningi við vöxt félagsins. Til marks um vöxtinn má nefna að stöðugildum fjölgaði um 23 á síðasta ári. Meðal fjárfestinga sem lagt var í voru ný vefverslun og ný „shop-in-shop“ verslun í Illum í Kaupmannahöfn. Auk þess hefur félagið aukið markaðssetningu og kynningarstarf sem hefur skilað sér í því að vörur frá 66°NORÐUR verða á boðstólnum í mörgum af virtustu verslunum heims, eins og Printemps og Merci í París, United Arrows í Japan og Shinsegae í S-Kóreu.

Metvelta var hjá félaginu á fyrsta ársfjórðungi 2018 og vöxtur í tekjum 26 prósent. Ánægjulegt er að sjá að þær fjárfestingar sem ráðist hefur verið í undanfarin ár skili sér í auknum tekjum bæði hér á landi og erlendis.

Árangurinn hefur líka vakið athygli og við erum sérstaklega stolt af því að hafa í síðasta mánuði hlotið Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2018, sem veitt voru fyrir að hafa náð afar athyglisverðum árangri í að hanna, framleiða og selja nútímalegan og vandaðan skjólfatnað, og markaðssetja með beinni skírskotun í íslenskan uppruna,“ er haft eftir Helga Rúnari í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér en hann virðist því bjartsýnn þrátt fyrir tvísýna stöðu félagsins. 

Uppfært: Helgi Rúnar segir í samtali við Viðskiptablaðið að búið sé að ganga frá langtímasamningum um fjármögnun og rekstrarhæfi félagsins sé tryggt og hafi í raun alltaf verið tryggt.