Vafi leikur á um rekstrarhæfi Sláturfélags Suðurlands til framtíðar, samkvæmt skýringum við árshlutareikning samstæðunnar fyrir fyrri hluta þessa árs sem birtur var í gær. Endurskoðendur félagsins vekja í áritun sinni athygli á skýringu þar sem fjallað er um rekstrarhæfið. Þar segir að við fall bankanna sl. haust hafi fjárhagsstaða SS versnað vegna veikingar krónunnar þar sem skuldir samstæðunnar séu að stærstum hluta í erlendri mynt. Þar segir einnig að ef lausnir stjórnvalda á Íslandi í peningamálum sem verið sé að vinna að leiði til „venjulegrar stöðu í rekstri fyrirtækja á Íslandi er að mati stjórnenda félagsins flest sem bendir til þess að hægt verði að reka félagið til framtíðar.“

Í skilum með öll lán

Í sömu skýringu segir að samstæðan sé í skilum með öll lán og að næsta árs afborgun langtímalána sé 224 milljónir króna. Samstæðan hafi í lok júní verið með góða lausafjárstöðu og ágætt veltufé frá rekstri á fyrri hluta ársins. Veltufé frá rekstri á tímabilinu nam 206 milljónum króna og dróst saman um 4% frá sama tímabili í fyrra. Handbært fé í lok júní nam 32 milljónum króna, sem er heldur meira en var um áramót, en aðeins um tíundi hluti þess sem það var um mitt ár í fyrra.

Velta SS jókst um 13% á milli ára og nam 3,7 milljörðum á fyrri hluta ársins. Vöru- og umbúðanotkun jókst hins vegar enn meira, um 24%, og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, dróst saman um 5% í 275 milljónir.

Eiginfjárhlutfallið komið niður í 15%

Tap SS á fyrri hluta ársins var 46 milljónir króna, sem er mun minna tap en á sama tímabili í fyrra, þegar það var um tíföld þessi fjárhæð. Tapið yfir árið í heild í fyrra var rúmlega 1,5 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar hefur rýrnað verulega. Það er nú 15%, var 20% um mitt ár í fyrra en um og yfir 40% á árunum 2005-2007.

Skuldir samstæðunnar nema 5,2 milljörðum króna, sem er svipuð staða og um áramót. Þetta er hins vegar veruleg aukning frá því sem áður var. Í árslok 2007 voru skuldirnar 2,9 milljarðar og 2,2 milljarðar í árslok 2006.