Munnlegur málflutningur hófst í morgun í Héraðsdómi í máli sérstaks saksóknara gegna Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og Guðmundir Hjaltasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis.

Málið snýst um 10 milljarða króna lánveitingu Glitnis til Milestone í febrúar 2008. Lárus og Guðmundur sátu í áhættunefnd bankans og skrifuðu undir lánið til Milestone án ábyrgða og trygginga. Ef lánið hefði ekki verið veitt hefði bandaríski bankinn Morgan Stanley átt rétt á að taka bréf bankans yfir. Verjandi Lárusar sagði að hefði lánið ekki verið veitt hefði Milestone líklega farið í þrot og Glitnir hefði verið í sömu áhættu vegna skuldbindinga félagsins við Milestone.

Meðlimir áhættunefndar áttu einungis að geta heimilað lánveitingar sem rúmuðust ásamt eldri lánum innan 17% af eigin fé. Með þessu 10 milljarða króna láni fóru heildarlán Milestone hinsvegar í 18,8%, eða í 42,4 milljarða króna.

Vilja láta vísa málinu frá

Verjendur Lárusar og Guðmundar fara báðir fram á að málinu verði vísað frá og málskostnaður fáist greiddur. Verjandi Guðmundar sagði málið ekki dómtækt. Rökin fyrir frávísuninni eru að lögreglumennirnir tveir, Guðmundur Haukur Gunnarsson og Jón Óttar Ólafsson, sem unnu að rannsókn málsins hjá sérstökum saksóknara hafi á sama tíma starfað fyrir þrotabú Milestone. Þeir hafi því haft persónulegra hagsmuna að gæta eins og segir í máli verjenda.

Í Héraðsdómi í morgun kom fram í máli verjenda að ýmis atriði hefði vantað í rannsóknarskýrsluna sem lögreglumennirnir unnu fyrir sérstakan saksóknara sem hefðu möguleg geta sýnt fram á hver hvatinn hefði verið af þessum lánveitingum Glitnis. Verjendur lögðu einnig áherslu á að ákvörðun Lárusar og Guðmundar hafi verið gerð með hagsmuni bankans að leiðarljósi.

Þrýstingur á sérstakan saksóknara

Verjandi Guðmundar sagði að fyrir áramót hefði verið mikill þrýstingur á embætti sérstaks saksóknara að leggja fram ákærur og vísaði þá í viðtöl við sérstakan saksóknara, Ólaf Hauksson, í fjölmiðlum og orð Evu Joly í fjölmiðlum. Jafnframt sagði hann að þessari ákæru hefði því verið skellt fram og líkti því við að verjendum hefði verið hent fyrir hundana og sagði að það væri skömm að því hvernig að þessu hefði verið staðið.

Sérstakur saksóknari tók að lokum til máls og sagði að störf lögreglumannann fyrir þrotabú Milestone hefðu verið áfall fyrir embættið en brot þeirra varðaði eingöngu trúnaðarbrest við embættið. Hugsanlega hefðu lögreglumennirnir veitt upplýsingar sem málsaðilar hefðu ekki átt að þola. Rannsóknin væri eftir sem áður fullnægjandi og gundvöllur málsins óhaggaður.

Málið áfall fyrir embættið

Sérstakur saksóknari sagði að gagnasöfnun hefði verið lokið um haustið 2011 og því hefðu störf lögreglumannanna ekki áhrif á þetta kærumál. Það hefði ekki legið í verkþætti lögreglumannanna að taka ákvarðanir í málinu. Einnig benti hann á að þeir ákærðu hefðu ekki lagt fram nein skjöl sem snúa að málinu sjálfu, það er umræddri lánveitingu til Milestone. Sérstakur saksóknari mótmælti því að ákæran væri vegna þrýstings á saksóknara að leggja fram ákærur fyrir jól og því væri það þessu ekki skylt að gera embættið tortryggilegt. Fleiri hefðu komið að málinu en lögreglumennirnir enda væri þetta mál á ábyrgð sérstaks saksóknara. Rannsóknin hefði byggt á fleiru en eingöngu skýrslu lögreglumannanna.

Verjendur lýstu óánægju sinni í dómssal vegna afhendingu gagna frá sérstökum saksóknara. Leggja ætti fram í gögn í upphafi þinhalds og því væri þetta óþolandi og ekki til eftirbreytni.