Vaki fiskeldiskerfi, sem fékk Útflutningsverðlaun forseta Íslands þetta árið, er með 96% af velu sinni erlendis. Um 85% framleiðslunnar tengist fiskeldi en um 15% tengjast vöktun villtra fiska. Heildarvelta þessa árs er áætluð 700 milljónir króna og hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár.

Megnið af framleiðslunni fer til útlanda og skilar útflutningur um 96% af veltunni. Stærstu viðskiptalöndin eru Noregur, Skotland, Kanada og Chile, en Vaki er með umboðsmenn og þjónustu í yfir 20 löndum og hefur selt búnað til meira en 40 landa.

Í höfuðstöðvum Vaka hér á landi, þar sem vöruþróun og markaðssókn, er til húsa, starfa 14 manns, en undirverktakar annast að mestu smíði á tækjabúnaðnum og er áætlað að sú smíði skapi meira en 20 ársstörf hér á landi. Vaki er með dótturfyrirtæki í Chile, þar sem starfa sex starfsmenn við sölu og þjónustu.

Á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru frá því Vaki lagði af stað  í vegferð sína frá heimi akademíunnar og inn í raunheima framleiðslu og viðskipta hefur margt á daga fyrirtækisins drifið. Mikil áhersla hefur frá upphafi verið lögð á tækni- og vöruþróun, sem er megin ástæðan fyrir því að fyrirtækið er með ráðandi markaðsstöðu á sínu sviði á flestum markaðssvæðum heimsins. Talningar- og stærðarmælibúnaðurinn sem fyrirtækið framleiðir gerir fiskeldisfyrirtækjunum kleift að mæla lífmassa í eldiskvíum og fylgjast þannig með vexti fiskanna - hvort vöxturinn er í takt við fóðrun og hitastig og hvenær fiskurinn nær heppilegri sláturstærð.

Vaki á rætur sínar að rekja til ársins 1985 er nokkrir nemendur úr rafmagnsverkfræði fengu hugmynd að sjálfvirkum talningarútbúnaði fyrir laxaseiði, sem byggðist á örtölvutækni. Þörfin fyrir slíkan búnað var fyrir hendi á þeim tíma, þar sem sala á laxaseiðum frá Íslandi til Noregs stóð sem hæst. Þróun teljarans hófst árið 1986, en framleiðsla og sala árið 1988. Þegar „Bioscannerinn“ var fyrst kynntur á alþjóðlegum markaði var talað um byltingu og sagt að hann væri lausn sem menn hefðu beðið eftir í áratugi eða meira.