Vaki fiskeldiskerfi hlaut frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 20009 við veglega athöfn sem fram fór í dag og veitti Hermann Kristjánsson, einn stofnenda og aðaleigandi verðlaununum móttöku. Það var Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra sem afhenti verðlaunin.

Fyrirtækið hefur alla tíð byggt á þróun eigin hugmynda og tekist að rísa upp í að vera arðsamt fyrirtæki um leið og stjórnendur þess hafa orðið að bregðast við margvíslegum breytingum á líftíma þess.

„Vaki fiskeldiskerfi er byggt utan um þá hugmynd að telja fiskseiði og er ekki aðeins einstakt á íslenskan mælikvarða, heldur er það leiðandi á heimsvísu og með yfirgnæfandi forskot á keppinauta sína,“ sagði Sigurður Már Jónsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins við afhendingu verðlaunanna.

„Félagið hefur treyst á innri vöxt, haldið fast í sína stefnu og þó það hafi orðið að bregðast við áföllum hefur því tekist að halda kúrs og er nú ört vaxandi fyrirtæki með skýra framtíðarsýn. Um leið hefur það tekið áhugaverð skref til þess að þróa vöru sína og þekkingu inn á ný svið. Félagið hefur skilað góðum hagnaði undanfarin ár og fest sig í sessi sem öflugt þekkingarfyrirtæki.“

Í tímariti Viðskiptablaðsins, Áramót, er að finna ítarlegt viðtal við Hermann.