Árið 2008 var lögum um grunnskóla breytt þannig að einkareknir skólar sem njóta viðurkenningar ríkisins eiga að fá tiltekið lágmarksframlag frá sveitarfélögum á hvern nemanda. Lágmarksframlagið nemur 75% af meðalrekstrarkostnaði á hvern nemanda í öllum opinberum grunnskólum landsins.

Framlög sveitarfélaga mega þó vera hærri en sem nemur þessu lágmarki. Garðabær hefur þannig veitt einkareknum grunnskólum í sveitarfélaginu sömu framlög á hvern nemanda og sem nemur meðalkostnaði bæjarfélagsins á hvern nemenda í grunnskólum sem reknir eru af Garðabæ, með því skilyrði að skólarnir innheimti ekki skólagjöld.

Rangt gefið

Áslaug Hulda Jónsdóttir er formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla, og jafnframt bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ og formaður bæjarráðs. Áslaug segir að það sé ástæða fyrir því að sjálfstætt starfandi grunnskólar á Íslandi séu jafn fáir og raun ber vitni. „Það er fullt af áhugasömum aðilum, en reksturinn er bara allt of þungur og flókinn,“ segir hún. Hún segir fyrirkomulagið eins og það er núna vera ósanngjarnt og ekki til að auka fjölbreytni og valkosti í íslensku menntakerfi.

„Við þekkjum umræðuna um að almennt eru grunnskólar fjársveltir. Þannig að ef þú sérð að ef þú ert að fá 75% af landsmeðaltalinu, og svo hafirðu 25% sem þú megir rukka í skólagjöld, þá þarf það að vera held ég hátt í 60 þúsund krónur á mánuði sem þú þyrftir þá að rukka,“ segir hún. „En skólagjöldin á Íslandi eru yfirleitt í kringum 20 þúsund krónur. Þetta hefur mikil áhrif. Bara fyrst þarna er rangt gefið.“

Áslaug segir ef vilji sé til að fá meiri fjölbreytni og ólíkari valkosti í íslenska skólakerfið þurfi að opna meira á einkaframtak í skólakerfinu þannig að einkareknir skólar séu í auknum mæli valkostur við sveitarfélagaskólana.

„Það sem gerðist í Garðabæ þegar Hjallastefnan kom þarna inn og Alþjóðaskólinn, er að þá hækkuðu staðlarnir. Á flestum stöðum í dag, og sérstaklega í Reykjavík, eru hverfamúrar þar sem er bara einn skóli,“ segir hún.

Ítarlega er fjallað um íslenska grunnskóla í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .