Aðalfundur Ungra athafnakvenna fór fram miðvikudagskvöldið 27.maí síðastliðinn þar sem fjórar nýjar stjórnarkonur voru kjörnar. Alls bárust 15 framboð en það er metfjöldi framboða hingað til. ,,Okkur þykir vænt um áhuga félagskvenna til stjórnarsetu og hlökkum til þess að sjá félagið vaxa enn meira næstu ár", segir Vala Rún, nýkjörinn formaður Ungra athafnakvenna.

Kosið er til tveggja ára en þær sem hlutu kjör eru Andrea Gunnarsdóttir, Bjarklind Björk Gunnarsdóttir, Ingveldur María Hjartardóttir og Kristjana Björk Barðdal. Ásamt nýkjörnum stjórnarmeðlimum skipar stjórn UAK 2020-2021 þær Amna Hasecic, Björgheiður Margrét Helgadóttir og Vala Rún Magnúsdóttir.

Markmið UAK er að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu. Vala segir félagið vera afar mikilvægt hreyfiafl sem hvetur ungar konur til dáða, veitir þeim innblástur og hjálpar þeim að þróa hæfileika sína. Stjórnin mun leggja aukna áherslu  á skýra stefnumótun til þess að efla hlutverk og framtíðarsýn félagsins. “UAK er ekki tilbúið til þess að bíða eftir því að hlutirnir breytist. Við viljum taka þátt í breytingunni og leggja okkar af mörkum til þess að skapa samfélagið sem við viljum búa í,” segir Vala.