Örar breytingar og ómarkviss stefna í skattamálum hafa valdið miklum skaða hér á landi. Hér á landi hafa stjórnvöld fælt í burtu fjármagn á meðan önnur ríki reyna að laða til sín fjármagn.

Þetta sagði Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, á skattadegi Deloitte og Viðskiptaráðs sem nú stendur yfir.

Í erindi sínu fór Vala yfir ólíkar áherslur íslenskra og írskra yfirvalda eftir hrun þar sem hún sagði Íra eiga vinninginn að flestu leyti. Hún sagði að Írar hefðu með markvissum aðgerðum leitað leiða til að laða að fjármagn til landsins . Hins vegar hefðu íslensk stjórnvöld brugðist við með þveröfugum hætti, þau hefðu með markvissum aðgerðum fælt frá fjárfesta auk þess sem gjaldeyrishöftin hér á landi gerðu það helst að verkum að menn gætu ýmist „keypt listaverk eða greitt skatta“ eins og Vala orðaði það.

Vala gagnrýndi skattastefnu stjórnvalda harðlega eins og hún hefur áður gert. Hún sagði að óstöðugleiki og örar breytingar valda miklum skaða og síst væru starfsmenn skattayfirvalda öfundsverðir að halda utan um allar þær breytingar sem orðið hefðu á síðustu árum.