Ríkisútvarp Tyrklands hefur aftur hafið útsendingar eftir að hafa hætt útsendingu í kjölfar þess að tilkynnt var um að herinn hefði tekið yfir stjórn landsins.

Var áður undir stjórn hermanna

Lesin var upp yfirlýsing um að friðarráð hersins hefði tekið yfir stjórn landsins í tyrkneska ríkisútvarpinu, eftir að stofnunin var tekið yfir af hermönnum hliðhollum valdaránstilrauninni sem nú er í gangi í landinu.

Nú er hefur stofnunin aftur hafið útsendingar og lýsa fréttamenn því að þeir hafi verið í haldi hermanna.

Forsetinn ákallaði þjóðina í beinni gegnum samfélagsmiðla

Recep Tayyip Erdogan forseti landsins kallaði á almenna borgara að fara út á göturnar í trássi við útgöngubann sem herinn lýsti yfir, í útsendingu í gegnum Facetime, sem tekin var upp á snjallsímum.

Fjöldi fólks hefur flykkst út á göturnar og sjást á samfélagsmiðlum myndbönd af fólki ráðast á skriðdreka, klifra upp á þá og deila við hermenn.

Allir helstu stjórnarandstöðuflokkarnir hafa gagnrýnt valdaránstilraunina. Hermenn höfðu tekið yfir höfuðstöðvar Réttlætis og framfaraflokks (AKP) forsetans, en flokkurinn hefur rætur í hreyfingu múslima.

Tyrkneski herinn áður tekið völdin

Tyrkneski herinn hefur tekið völdin þrisvar áður í landinu til að koma valdamönnum hliðhollum auknum áhrifum íslamstrúar í landinu frá völdum, en herinn hefur lengst af litið á sig sem varðmenn veraldlegs valds í landinu.

Sagði forsetinn að enginn gæti farið gegn vilja fólksins. Ríkisstjórn Bandaríkjanna og fleiri vestrænna ríkja hafa fordæmt valdaránstilraunina.

Ríkisstjórn landsins segist vera að ná tökum á ástandinu og forsetinn sem var í fríi er sagður vera á leiðinni til Istanbúl. Jafnframt hefur verið tilkynnt um að alþjóðaflugvöllurinn í Istanbúl verði opnaður á ný eftir að hafa verið lokaður í valdaráninu.