Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, segir Samherjamálið dæmi um að auknar valdheimildir seðlabanka – sérstaklega á sviði eftirlits og framfylgd reglna – grafi undan sjálfstæði þeirra og lami getu eða viljugleika þeirra til að sinna hlutverki sínu.

Þetta kemur fram í grein eftir Jón á vefsíðu rannsóknarstofnunarinnar CEPR, þar sem Jón vísar í aukna valdasöfnun seðlabanka um allan heim í kjölfar fjármálakrísunnar, tekur dæmi af gjaldeyriseftirliti seðlabankans hér á landi, og rekur Samherjamálið nokkuð ítarlega.

Hann segir góð og gild rök geta verið fyrir því að fela seðlabankanum eftirlitshlutverk og framfylgd vissra reglugerða. Peningastefna sé samofin þjóðhagsvarúð, og þjóðhagsvarúð samofin eindarvarúð, og um sömu upplýsingar og verkfæri sé að ræða við framkvæmd þeirra allra. Samherjamálið varpi hinsvegar ljósi á þær hættur sem því fylgi.

Kemur sér illa fyrir alla
Jón segir einstakt sjálfstæði seðlabanka meðal ríkisstofnana – sem ætlað er að tryggja faglega framkvæmd peningastefnu í þágu almannahagsmuna til langs tíma – torvelda úrlausn deilna milli bankans og eftirlitsskyldra aðila í tengslum við framkvæmd eftirlitsins.

Komi upp deilur við hefðbundnar eftirlitsstofnanir sé það hlutverk réttarkerfisins og stjórnvalda að leysa úr þeim. Tapi stofnunin dómsmáli geti hún annaðhvort sætt sig við niðurstöðuna og breytt framkvæmd sinni til samræmis við hana, eða óskað eftir lagabreytingu. Hvort tveggja leiði deiluna til lykta.

Ólíkt hefðbundnum eftirlitsstofnunum sé seðlabankinn, þökk sé lögbundnu sjálfstæðinu, í reynd æðsta úrskurðarvald í þeim málum sem undir hann heyra. Vissulega geti dómstólar dæmt bankanum í óhag, en óljóst sé hvað taki við eftir það. Þar sem seðlabankinn heyri ekki með beinum hætti undir stjórnvöld, geti þau ekki komið því til leiðar að úr deilunni sé leyst. Þetta komi sér illa fyrir alla aðila málsins.

Seðlabankinn sé þá settur í þá stöðu að annaðhvort gefa eftir að eigin frumkvæði, eða standa sem fastast á sínu þrátt fyrir að hafa tapað málinu fyrir dómstólum. Hvort tveggja geti haft neikvæð áhrif á orðspor hans. Hætt sé við að í því ljósi dragi bankinn sig annaðhvort í hlé og forðist að rækja hlutverk sitt af ótta við slíkar aðstæður, eða gerist sekur um valdníðslu og hroka, og virði að vettugi athugasemdir yfirvalda, þar með talið dómstóla.

Jón Daníelsson var einn 16 umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra hér á landi í sumar, og einn fjögurra sem metinn var „mjög vel hæfur“ af hæfisnefnd. Ásgeir Jónsson var skipaður í embættið í lok júlí.